Færsluflokkur: Bloggar

Ættarmót Hólsara

Ég er gift inn í Hólsættina. Það er afbragðsætt. Flestir karlarnir með skalla, grandvarir, góðhjartaðir og glaðlegir. Allir hver öðrum líkir. Við Eymundur Ás fórum í Skaffó áðan og þegar við erum að fara inn í búðina, eru gömlu Hólshjónin Grétar og Ingibjörg á leiðinni út. Eymundur Ás sér Grétar út undan sér og kallar til hans: Hæ afi! Við fullorðnu fórum auðvitað að hlæja og Eymundi þótti þetta ógurlega leiðinlegur misskilningur. Ég reyndi að hughreysta hann með því að þeir væru sláandi líkir bræðurnir, afi hans og Grétar. Eymundur lét það gott heita og bætti svo við: Ég held að þeir eigi líka eins föt.

Auk mér trú

Stundum verð ég pínu þunglynd og leið yfir asnalegum hlutum sem engu máli skipta. Þegar ég átta mig, þá skammast ég mín niður í tær og þakka fyrir allt sem mér hefur verið rétt og úthlutað. Lífið er svo stórkostlegt og bikarinn minn er oftast barmafullur. Gott að láta ljós upprisunnar skína á sig svona eftir páskana. Fyrr en varir kemur vorið. Og bæ þe vei.. komið lamb í Tungu: svarkrúnótt lambadrottning. Þórgunnur sá hana á mynd og hélt að þetta væri kanína. Þarf kannski að fara að taka dýrafræðina í gegn??

Páskasól

Páskarnir eru í fyrra fallinu þetta árið og það hefur hálf ruglað mig í ríminu. Ég er algjörlega andlega tilbúin í sól og sumaryl, vorvinda glaða glettna og hraða með fuglasöng yfir og allt um kring. En samkvæmt dagatalinu er það ekki tímabært.
Páskatörnin er hjá að mestu og gekk allt samkvæmt áætlun. Nema tónleikar Palla og Moniku, þeir fóru fram úr björtustu vonum, aðsóknin var svo góð að það hefði ekki komist einn í viðbót í kirkjuna og þau snillingarnir voru bara frábær. Hrönn hans Rögga sendi mér mjög fyndnar myndir af mér með þeim hjúum, setti eina inn að gamni mínu. Ég er eins og fulltrúi aldanna þarna á milli þeirra. Ætla að taka það rólega í dag, ekki gera mikið meira en að vera með börnunum mínum og borða hjá tengdó.

Siglfirðingarnir mínir

Mér þykir svo vænt um Siglfirðinga eftir að ég var að vinna þar fyrir rétt um ári síðan. Það er ótrúleg sálarbót að hlusta á passíusálmana lesna frá upphafi til enda en á þessum degi í fyrra tók ég einmitt þátt í lestrinum í Siglufjarðarkirkju.
mbl.is Passíusálmarnir lesnir á Siglufirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær játningar

Ég fer stundum í sund á morgnana. Þá hitti ég gjarnan eldhressa eldri borgara. Reffileg hjón sem ég hafði hitt nokkra daga í röð fengu snert af taugaáfalli þegar áttuðu sig á hver ég væri. Ég er svo sem ekki óvön því að fólk sé hissa á því en lífið hefur farið um mig það mjúkum höndum hingað til, að þessi 32 ár sem ég hef lifað geta litið út fyrir að vera heldur færri. Ég sagði þeim að nú kæmu þau laglega upp um sig, þau kemur ekki oft til kirkju fyrst þau þekktu mig ekki. Þau viðurkenndu það og maðurinn sagði að það væri ástæða fyrir því. Eftir að messunni var breytt (Já, hvernær var messunni breytt? Messan hefur verið eins síðan um siðaskipti, svona hér um bil) og farið að lesa trúarjátninguna í hverri messu, þá missti maðurinn allan áhuga á kirkjugöngu. Til hvers er það nú að, að vera að þylja trúarjátninguna, ha? Fyrir hvern er það gert? Þá sagði annar sem kemur öðru hvoru í messur, að annað færi meira í taugarnar á honum en trúarjátningin og það væri syndajátningin. Hann þyrfti ekki að játa neinar syndir sem hann hefði ekki samviskunni, því að hann væri alls ekkert syndugur. Gat glatt þá báða með því að í messu á föstudaginn langa er hvorki farið með trúar-eða syndajátninguna.

Skyldi Geir syngja?

Furðuleg frétt. Af hverju stendur ekki bara að Geir hafi boðað til blaðamannafundar? Punktur.


mbl.is Blaðamannafundur boðaður að loknum ríkisstjórnarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seinheppin stjórnmálamaður

Æi, hann Berlusconi! Ætlaði að vera fyndinn eða sleppa því að svara óþægilegri pólitískri spurningu. Fólk verður greinilega ekki heppnara í tilsvörum þó það eigi eitthvað af aurum.
mbl.is Gifstu milljónamæringi segir Berlusconi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sonurinn á skjánum

Sáuð þið Eymund Ás, sleðakappa, í Kastljósinu? Honum brá fyrir í örfáar sekúndur. Er að hugsa um að ganga til náða, ég þarf að vera hress og kát um helgina (eins og ég er ávallt; skáhallt).

Mitt lið tapaði

Þetta var nú spennandi! Verst að MA vann ekki. Þau hefðu unnið hefði verið keppt um skemmtiatriði. Það finnst mér.
mbl.is MR vann eftir bráðabana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilaboðaskjóða

Meiri ósköpin hvað tíminn líður hratt. Eftir einn og hálfan mánuð koma gæsir og svanir í tún og Marie hin sænska flýgur á heimaslóðir að nýju. Held í þá veiku von að piltur sem farin er að venja komur sínar hingað í Túnið geti orðið til að lengja veru hennar á Fróni.
Fjölskyldan fór á leiksýningu 10du bekkinga síðdegis. Það var ljómandi gaman og Þórgunnur var mjög dugleg en þetta var í fyrsta sinn sem hún fer í leikhús. Eymundur Ás kunni leikritið utan að, hann hafði stúderað diskinn í þaula, líklega á leikskólanum eða Skammó, því hann er ekki til hér. Ekkert kom honum því í opna skjöldu.
Er búin að plana sumarið óþægilega mikið. Helgarnar virðast vera helst til fáar, m.a.v. allt sem ég þarf að gera og hitt sem mig langar að gera.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband