Færsluflokkur: Bloggar

Tilboð sem ekki er hægt að hafna

Ég verð að komast í gönguferð annað kvöld. Vill einhver passa?

Þjóðhátíðarblogg

Langt síðan ég hef sest við skriftir, hef ekkert skrifað undanfarna daga nema undir visakvittanir. Við skelltum okkur í borg óttans á fimmtudaginn var, ég og börnin. Heimilisfaðirinn fór á undan okkur og er reyndar ekki enn kominn heim, því hann fór í langa og stranga keppnisferð sem ekki sér fyrir endann á. Hann fór sem sagt með gamla Rauð í úrtöku fyrir heimsmeistaramót og rambar á barmi heimsfrægðar. Held að það hafi verið Kuklið frekar en Tappi tíkarrass sem hafði einkunnarorðin "heimsyfirráð eða dauði" og þau gætu alveg átt við Tóta líka.
Við komum ýmsu í verk á skömmum tíma, ég skírði Guðmund Óla Jóhannsson og Elku, seinni part á laugardag en um morguninn heimsóttum við þann hámenningarlega stað Húsdýragarðinn. Krökkunum þótti það ekki ónýtt; sérstaklega að sjá seli í návígi, örn og refi. Þetta gekk allt eins og í sögu, alveg þar til heimasætan fyrrverandi ætlaði að fara í útskriftarveislu hjá Ninnu Sif, fornvinkonu sinni. Vildi ekki betur til en ég fann ekki veisluna, var næstum búin að knýja dyra í öllum hjöllum Hveragerðis en ekkert bólaði á Ninnu. Þá var ekki annað að gera en krúsa yfir Hellisheiðina og kúldra sig niður hjá kalli og krökkum enda stór dagur framundan. Við frænkurnar Inga Heiða og ég huggðumst fara í mikla göngu yfir Leggjabrjót á sunnudagsmorgni. Sem við gerðum og ótrúlegt en satt, fengum frábært veður á þjóðhátíðardeginu. Þetta var mjög þjóðleg ferð um forna þjóðleið milli Þingvallasveitar og Hvalfjarðar, Leifur fararstjóri flutti ljóð eftir Jónas og helstu þjóðskáldin á hverjum hól. Okkur grunaði að hann hafi laumað einhverju með eftir sjálfan sig en fáum líklega aldrei úr því skorið. Þetta var snilldarferð sem gerir ótrúlega mikið fyrir atvinnulausar húsmæður úr framsveitunum, gott veður og góður félagsskapur, er hægt að fara fram á meira?


Af vatnsdrykkju

Einu sinni sagði kona nokkur við mig að ef hún drykki mikið vatn, færi að suða fyrir eyrunum á henni. Ef að þessi kona hefur haft á réttu að standa, gæti verið árniður fyrir eyrunum á mér m.a.v. hvað ég drekk mikið vatn.

Nú er sumar

Mikið er frábært að hafa sumar. Í dag plokkaði ég arfa upp úr stéttinni, bakaði sandköku úr Drangeyjareggjum og fór í sund með börnin í Varmahlíð.

Folald

Grána mín er köstuð! Jabadabadú..

Fyrsti laxinn

Mig langar að veiða lax. Veiðar eru eitt af mínum duldu áhugamálum.
mbl.is Fyrsti lax sumarsins kominn á land úr Norðurá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri tíð

Lífið leikur við okkur hér í Túninu, sólin skin, fuglarnir syngja og kominn reiðmeistari á heimilið (sjá www.eidfaxi.is).
Við mæðgurnar ætlum að fara í pæjuferð í Reykjavíkurhrepp en þó enn fremur Akranes. Það býr aðalpæjan hún amma og hana hef ég ekki séð svo mánuðum skiptir.

Oh ó, er Tinky Winky hommi?

Það væri þá ekki fyrsti heimilisvinurinn hér á bæ sem er samkynhneigður. Mér þykir vænna um Stubbana en nokkarar aðrar teiknimyndafígúrur. Þetta er eina myndefnið sem höfðar til Þórgunnar. Því miður eigum við aðeins eina Stubbaspólu sem Eymundur Ás erfði eftir Odd frænda sinn. Ég gæti þulið öll samtöl Stubbanna í svefni jafn sem vöku enda líklega hlustað fleiri hundruð sinnum á spóluna. Stubbarnir eru ósköp kærleiksríkir karakterar en um kynhneigð þeirra þori ég ekkert að fullyrða.

En það sem fólk getur látið sér detta í hug.


mbl.is Umboðsmaður barna í Póllandi dregur ummæli sín um Stubbana tilbaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Orkedíur

Stundum hef ég ekki vit á að halda mér til hlés. Fór í blómabúð sem ekki er í frásögur færandi. Voðalega margt falleg í blómabúðinni, m.a. blómstrandi orkedíur. Ég segi við afgreiðslukonuna: Ég er búin að eiga orkedíu í mörg ár og hún blómstrar alltaf en samt virðist engin mold vera í pottinum og ég man næstum aldrei eftir að vökva hana. Afgreiðslukonan svarar: Orkedíur eru sníkjublóm og verða fallegri eftir því sem verr er farið með þær.
Virðist henta mér ágætlega.

Nú er tíminn

Skyldi tíminn hennar Jóhönnu ekki vera kominn? Veit ekki hvenær hann kemur ef ekki núna.
Aumingja Sturla, settur í úreldingu eins og gamall ryðkláfur. Ég vorkenni honum. Kristján Möller mun eflaust koma tvennum göngum til Siglufjarðar á samgönguáætlun. Við skulum öll biðja fyrir ríkisstjórninni, að hún megi verða gæfurík og þjóðinni til heilla.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband