Færsluflokkur: Bloggar

Hvað er það sem þarf til?

Menntaskólinn Hraðbraut auglýsir í Fréttablaðinu í dag. Þar eru á mynd tvö ungmenni hvert öðru fallegra og gjörvulegra, 19 ár flugmaður sem útskrifaðist fyrir tveimur árum og 17 ára afrekskona í körfubolta sem er að ljúka stúdentsprófi. Svo spyr Menntaskólinn Hraðbraut þessari sakleysislegu spurningar: Hefur þú það sem til þarf?
Ég var ekki sammála Þorgerði Katrínu þegar hún vildi stytta framhaldskólann og útskrifa stúdenta á þremur árum. Kannski vegna þess að ég nennti aldrei að leggja hart að mér í námi og var því ekki nema rétt meðalskussi í skóla. En ekki síður vegna þess að ég á góðar minningar frá mínum framhaldsskólaárum, þar sem ég tók þátt í félagslífi, eignaðist frábæra vini og hafði tíma til þess að gera fleira en læra. Ég hefði aldrei komist á Hraðbraut. Margir af mínum skólafélögum vörðu miklu meiri tíma í námið en ég og sumir fengu mun hærri einkunnir. Hinsvegar voru líka nokkrir sem þurftu að leggja hart að sér til þess að halda áætlun. Þau hefðu ekki þurft að láta sig dreyma um að komast á Hraðbraut, því þau hafa ekki það sem þarf til, eins og auglýsingin spyr um. Ég er ekki viss um að unglingunum sem "hafa ekki það sem til þarf" finnist auðvelt að lesa auglýsinguna frá Hraðbrautinni.

19.maí er í dag

.. til hamingju með afmælið Halli!

Ó, ljúfa líf

Nú er ég atvinnulaus og það er ósköp notalegt (lítið á fugla himinsins). Ég er búin að vera mamma í fullu starfi frá því á þriðjudag og var næstum búin að gleyma að hef fleiri skyldum að gegna, gagnvart Guði og mönnum, þegar ég var beðin að taka að mér útför um næstu helgi. Það gleður mitt gamla hjarta að fólk velji mig til mikilvægra verka.


Stjórnarslit og pönnukökur

Það hafa orðið nokkur tíðindi í dag, bæði heima og heiman. Í fyrsta lagi (eins og allir viti það ekki) er þessu dæmalaust farsæla stjórnarsamstarfi lokið eftir 12 ár. Í annan stað bakaði ég pönnukökur sem heppnuðust, í tilefni af stjórnarslitunum. Ekki minni fréttir en að ríkisstjórnin segi af sér.
Þetta var nú ágætt allt saman. Nú verða vinstri menn og kratar að finna sér einhverja aðra en Framsóknarflokkinn til að kenna um allt sem aflaga fer. Bændur búi sig undir nýsjálensku leiðina í landbúnaði og svo göngum við léttir í lundu í EB. Eins gott að ég er komin upp á lag með að baka pönnukökur til að geta fagnað aukinni velferð sem samfylkingin hefur lofað okkur komist hún til valda.

Æi...

Mikið vona ég heitt og innilega að Jón Sig láti Geir Haarde ekki gabba sig til að vera áfram í stjórnarsamstarfi. Gruna Geir um að nenna ekki að skipta um samstarfsflokk. Líklega ekki mjög frumleg analýsa en, Framsóknarmenn þurfa að staldra við og skoða sín mál og hafa að mínu mati ekkert í ríkisstjórn að gera. Sorrý.

Kosið og ekki á allt kosið

Ein af minum æskuminningum er að horfa á Söngvakeppni sjónvarpsstöðva með móður minni. Pabbi vildi aldrei vera með í því, kannski af því að keppnin er alltaf haldin á háskaðræðistíma fyrir sauðfjárbændur. En hann tók eftir strax um 1980 að grannar gáfu grönnum stig, óháð því hvort lögin töldust spennandi eða ekki. Svona er þetta greinilega enn. Ég er spenntari fyrir seinni talningu kvöldsins, reikna með að hún snerti mig meira persónulega í orðsins fyllstu merkingu. Þau úrslit kunna að koma við mann þar sem maður er viðkvæmastur fyrir, þ.e.a.s í veskinu. Fannst vanta brand í framsóknarmenn fyrir þessar kosningar, þá meina ég frambjóðendurna. Varla nokkur maður sem tekur stór upp í sig lengur í þessum flokki, Dóri gamli Ásgríms mátti þó eiga það að hann varð alltaf skotfastur fyrir kosningar, viðskotaillur og dáldið agressívur. Helst sunnlenski blaðamaðurinn sem lætur eitthvað að sér kveða. Enda óhætt að leggjast á árarnar.

Hr. Bónus auglýsir

Þeir sem eiga mikið af peningum geta gert það sem þeim dettur í hug, hversu hallærislegt og óviðeigandi sem það kann að vera.

Bækur og ljóskur

Sóknarpresturinn á Siglufirði hefur ekki þreytst á að segja mér brandara undanfarnar vikur. Marga þeirra hafði ég heyrt en var búin að gleyma þeim. Til dæmis þennan:

Tvær ljóskur ætluðu að gleðja þá þriðju með gjöf. Þá segir önnur: Eigum við að gefa henni bók? Hin svarar: Nei, við skulum ekki gera það. Hún á bók.


Ný læknisfræðileg rannsókn

Ætla að gera tilraun á sjálfri mér. Fara út í garð með sláttuvélina og athuga hvort hausverkurinn hverfi.

Gaman að lifa með og án lifrarpylsu

Það er svo frábært að lifa og vera til. (Nú sannfærast einhverjir um að ég sé með geðhvörf og í dag sé uppsveifla). En í morgun virtist litla skottið hún Þórgunnur vera heil heilsu í fyrsta sinn í margar vikur. Slíkt gleður móðurhjartað ósegjanlega. En til marks um bata gúffaði Þórgunnur í sig næstum hálfum lifrarpylsukepp með hafragrautnum og hefði viljað meira en við stoppuðum hana af. Ekki viljum við að barnið fái átröskunarsjúkdóma fyrir tveggja ára aldur. Ég skil ekki lifrarpylsu. Mér finnst hún svo ógeðslega vond eins og allt sem búið er til úr lifur. Fyrir vikið get ég ekki hugsað mér að fara á danska kúrinn, því ég hef séð að þar spilar lifur stórt hlutverk. Mig langar ekkert sérstaklega á danska kúrinn, get eiginlega ekki hugsað mér það. Af því að ég borða ekki lifur get ég ekki farið á danska og held því áfram að borða allt sem mér þykir gott, auðvitað.
Í gærkvöldi var fundur hjá Þroskahjálp í Skagafirði og Hún. Fyrir fáum mánuðum vissi ég varla að sá félagsskapur væri til en skyndilega er ég orðin formaður í sama félagi. Margt kemur manni á óvart en enginn annar fékkst í verkið. Þetta var fínn fundur, ráðgjafar frá Sjónarhóli og Landsamtökum Þroskahjálpar kynntu starfsemi sína og héldu áhugaverð erindi. Það er þó nokkur pakki að setja sig inn í allt sem varðar málefni fatlaðra.
Börnin mín skipuleggja Eurovision partý á fimmtudagskvöldið. Öllu heldur skipuleggur Eymundur Ás og Þórgunnur kemur með eins atkvæðis athugasemdir á réttum stöðum. Þá skal vera í boði pitsa bökuð af okkur mæðginum. Hann Eymi Ás Sigguson er ákveðin í að teyga bikarinn til botns og ekki þarf að tilefnið að vera stórt svo hægt sé að halda partý.
Er á leiðinni til Siglufjarðar, kannski í síðasta skipti í embættiserindum. Kann vel við Siglfirðinga og hef átt við þá gott samstarf og uppbyggileg samskipti.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband