Færsluflokkur: Bloggar

Pappírsbrúðkaup

Nú hlýtur þessum hveitibrauðsdögum að fara að ljúka, eins árs brúðkaupsafmæli í dag!

Sumarið er tíminn

fyrir giftingar. Ég ætla að mæta í þrjár áður en mánuðurinn er úti. Fæ ekki atvinnuleysis þugnlyndi rétt á meðan:-)
Við Eymundur Ás erum aðeins farin að huga að utanför en Tóti og Kraftur þó meira. Þórgunnur kærir sig kollótta og er farin að brúka kopp ca. í annað hvort skipti. Litla barnið mitt byrjar eftir nokkrar vikur á leikskóla og hættir eflaust á bleiu fyrr en varir.. það er ekkert annað.

Klukk..

Sunna Dóra, prestfrúin í hlutastarfi, klukkaði mig. Hér koma játningarnar átta. Ætla ekki að vera með nein frávik frá því almenna eða ljósra upp leyndarmálum.
1. Ég er ljóshærð.
2. Ekkert hefur breytt lífi mínu jafn mikið og börnin mín tvö.
3. Ég treysti oft á eigið innsæi því það hefur reynst mér vel.
4. Ég er lang oftast heppin (t.d. þegar ég bakkaði á ljósastaur um daginn; þá bakkaði ég á með kúlunni og skemmdi bílinn ekki neitt.)
5. Mér finnst mótaskrá LH stundum stjórna lífi mínu um of.
6. Ég er veik fyrir bókum, sérstaklega krimmum, þó mér finnist það ekki mjög kristilegt
7. Ég er sælkeri.
8. Ég trúi.

Útilega - og hestar

Í kvöld skal skunda á Dalvík og fylgjast með Íslandsmóti í hestaíþróttum. Hlakka til að hitta vini og kunningja, horfa á hesta og sofa í tjaldi. Gæti reyndar skrifað langa færslu um þá árlegu lífsreynslu að tjalda Alpen Kreuzer í fyrsta skipti en það stendur eins og stafur á bók að Tóti missir sig alveg í þeim gjörningi.
Þrýstingurinn er örugglega þokkalega hár hjá hestamanninum um þessar mundir þar sem hann ætlar að reyna að vera þrjú gull um helgina.
Góða helgi þið hin.

Hestar og menn

Það var viðfangsefnið um helgina. Ég var mjög dugleg, gifti eitt par; reið á marga bæi og átti samfélag við gamlar og góðar vinkonur. Vinkonur eru eins og viskí, þær batna með aldrinum.

Öðruvísi mér áður brá

Í gamla daga þegar ég var að alast upp í fullkomnu öryggi á Kjálkanum var ég alveg viss um að ljótu kallarnir í sjónvarpinu væru allir í útlöndum. En eins og einn bloggari benti réttilega á; hryðjuverkamenn þurfa líka frí.
mbl.is Meintur hryðjuverkamaður á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfvaldir átthagafjötrar

Að heilsa og kveðjast er lífsins saga. Ég er betri í að heilsa en kveðja. Var að kveðja Árna og hans fólk sem flyst til Danmerkur á mánudaginn. Mátti sjá blika á tár; ekki á óþreyjufullum ferðalöngum heldur mér sem sit sem fastast og vil hvergi fara. Danmörk er ekki langt í burtu og þangað er hægt að komast ótt og títt fyrir lítinn pening. Samt á ég eitthvað erfitt með þetta, t.d. að geta ekki tölt upp í hverfi á síðkvöldum þegar börnin eru sofnuð og rætt málin við Árna spilandi á gítar og hafa ekki hugmynd um hvort að hann er að semja nýtt lag, hugsa upp nýja kvikmynd eða hvað? Dæmalaust hvað hægt er að vera eigingjarn, þetta er mál sem þarf að vinna í.
Líklega er ekki minnsta ævintýraþrá í heimasætunni fyrrverandi. Mér líður vel hér á mínum æskuslóðum, vill hafa kunnugleg fjöll í kringum mig og norðanáttina blása blítt á kinn.

Blóm eru falleg

Líka lúpínan eða það finnst mér.
mbl.is Umdeildur dugnaðarforkur breiðir úr sér í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að láta nauðga sér

Ég átti tal við konu um daginn sem sagði mér frá frænku sinni 17 ára sem hún hafði sérstakt dálæti á. Vinahópur frænkunnar ungu var á leiðinni á bæjarhátíð í Ólafsvík s.l. sumar en þá sagði frænkan unga nei takk, ég ætla ekki til Ólafsvíkur til að láta nauðga mér. Sumir eru varkárari en aðrir og við hlógum saman að þessu kommenti, konan og ég en jafnframt rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds. Stúlka þessi taldi öryggi sínu best borgið með því að sitja heima en hvað með hinar sem fóru, skyldu þær hafa látið nauðga sér? Enn einn misskilningurinn í sambandi við konur og kynlíf, konur láta ekki nauðga sér, þá væri verknaðurinn ekki nauðgun.

Til hjálpar reiðubúin

Ég fær oft góðar hugmyndir þegar Tóti er ekki heima. Er að spá í að halda ræktunarmerinni sem við eigum með Elku frænku, áður en hann kemur heim. Spara honum ómakið. Þá þarf hann ekki að taka ákvörðun um hvaða hest sé best að nota, ég verð búin að því fyrir hann. Fæ Einsa bró með í samsærið og geri hann samsekan, svona til að dreifa áhættunni.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband