Færsluflokkur: Bloggar

Létt helgi og léttmessa

Það er fríhelgi framundan, alveg fram á sunnudagskvöld kl.20 en þá vindum við okkar kvæði í kross og höfum léttmessu. Nafna mín, stórsöngkonan, Anna Sigga Helgadóttir kemur í heimsókn og leiðir söng í messunni og Björn Björnsson sem er mjög léttur í lund, flytur hugleiðingu. Ég skelli messuauglýsingu hér inn af því að ég á von á aukinni umferð um síðuna. Ekki skyldi vanmeta mátt fjölmiðlanna.

Farið varlega og hafið það gott um helgina.


Allt er hégómi

Aumingja Emma, einmitt þegar hún ætti vera heima með litla strákinn og hafa það huggulegt, þá þurfa Kryddin að vera mjó og sæt í nærhalda auglýsingu. Sveit attan.
mbl.is Kryddpía berst við aukakílóin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ökutímar & Óvitar

Skruppum á Akureyri í leikhús á laugardagskvöldið og sáum Ökutíma. Við vorum bæði mjög hrifin af sýningunni, leikararnir stóðu sig ofsalega vel, leikmyndin var flott og tónlistin tær snilld. Las gagnrýni í Mogganum um sýninguna í dag, mér finnst alltaf svo skemmtilegt að lesa gagnrýni, hvort sem hún er um bíómyndir, bækur eða listviðburði. Ég hnaut um eitt í gagnrýninni en það var athugasemd um aukaleikararna, "gríska kórinn". Gagnrýnandanum fannst gríski kórinn full grínaktugur og minnka á trúverðugleika aðalpersónunnar. Þegar að verið að fjalla um jafn alvarlega hluti og kynferðislega misnotkun, þá þarf maður á smá léttleika að halda. Mér fannst nógu margir vera að berjast við tárin samt. Guð gaf manninum húmor til þess að hann lifði af.
Feðgarnir skelltu sér svo norður seinni partinn í gær að sjá Óvitana. Skemmst er frá að segja að báðir skemmtu sér hið besta enda Íris mamma og Tungubörnin með í för.

Sálma-og söngvakvöld í kirkjunni

Ég var að koma af afskapalega góðri stund í kirkjunni, þar sem tvær ungar stúlkur og sérstaklega hæfileikaríkar sungu sálma og gospeltónslist. Það voru þær Silla Vordís og Rakel Rögnvaldsdóttir sem þöndu raddböndin og þær voru svo rosalega skemmtilegar. Takk fyrir þennan svanasöng stelpur.

Bændur fá síður krabbamein

Þessi frétt hlýjaði mér um hjartaræturnar. Það er þá til einhvers allt erfiði íslenskra bænda. Pabba þótti verst hvað þeir drykkju og reyktu lítið og taldi það vera augljósa afturför. Hann hefur sjálfur lagt hvor tveggja á hilluna, enda orðið löggilt gamalmenni

Af ágreiningsmálum hjóna í Túni

Þegar við hófum búskap hér á Sauðárkróki kom ég með þá framsæknu uppástungu að við keyptum okkur stiga eða öllu heldur tröppu þar sem lofthæð er óvenju mikil í Túninu okkar heima. Sú tillaga var algjörlega kolfelld í allsherjarnefnd, þar sem heimilisfaðirinn taldi óþarfa útgjöld og mesta bríarí að splæsa í slíkan lúxus grip sem áltrappa er. Það sem fæstir vita er að hér á heimilinu er háaloft. Þar er töluvert af dóti sem við erum ekki að nota dagsdaglega, eins og útilegudót, jólaskraut og barnaföt sem ég tímdi ekki að láta Rauða krossinn hafa EF svo ólíklega vildi til að storkurinn ætti leið hjá garði. (Hverjar eru líkurnar á því á Íslandi?) Upp á háaloft kemst enginn nema fuglinn fljúgandi og Tóti. Hann prílar þá upp á vaskaborðið í þvottahúsinu og vegur sig upp um lofthlerann með handafli og ég verð að rétt honum það sem á að fara upp og hann að rétta mér það sem á að fara niður. Þetta fjölgar heldur samverustundum okkar hjóna, eykur á samhæfni og samvinnu en fleiri kosti hefur mér ekki tekist að sjá út úr þessu fyrirkomulagi. Ekki láta ykkur detta til hugar að ég geti ekki líka farið upp á loft, ég gæti það alveg en ég vil ekki taka áhættuna á því að slasa mig.
Nú þyrfti ég að komast upp á loft því Elenora mágkona mín hringdi og bað mig að koma forláta Polarn og Pyret kuldagalla af Eymundi Ás á vinkonu sína sem er á leið til Danmerkur. Kuldagallinn er upp á lofti. Tóti er ekki heima. Sem þýðir að kuldagallinn fer ekki lönd né strönd. Svona er ástin, hún linar mann upp og lætur mann gefa eftir. Stundum verður að gefa eftir í hjónabandi. Ég gaf eftir þegar að ég fékk ekki að kaupa tröppuna fyrir tveimur árum.

Teggggjjj ála..

á morgun verður dóttir mín tveggja ára. Litla skottið mitt er hætt að vera smábarn og orðin hér um bil að krakka. Hætt með bleiu og allt. Þá er best að skokka í Hlíðó og versla í súkkulaðibitakökur Ölmu sem þykja ómissandi í afmælum hér á heimilinu.

Vorum í mestu rólegheitum að heimsækja vini og venslafólk í dag, í gær kom slatti af ættingjum og þambaði kakó og sporðrenndi sænsku bakkelsi í tilefni af fyrrgreindum tímamótum.


Höfuðfötin margskonar

Geir og Inga Jóna gengu til Rómar eins og Guðríður forðum til að afhenda páfanum eintak af nýrri biblíuþýðingu. Blessunarlega getur Benedikt ekki lesið íslensku, hann yrði varla ánægður með að Páll postuli tali jafnt við konur og karla í bréfunum, frekar en Geir Waage. En nóg um það; það sem vakti athygli mína var höfuðbúnaður Ingu Jónu, hvað í dauðanum var konan með á hausnum?

Hverfula blogg

Í dag var ég búin að skrifa lærða bloggfærslu með kristilegum áherslum en allt kom fyrir ekki. Hún gufaði upp.
Hér er allt í sóma, tveggja ára afmæli í uppsiglingu og vetur á næsta leiti.

Óreglu heimili

Stundum þarf ég að vera út um hvippinn og hvappinn vegna starfs míns. Kom heim um eitt leytið í nótt og var fegin að leggjast á koddann. Ekki hafði ég sofið lengi þegar frumburðurinn tekur að hrópa og kalla.. og hann var glaðvakandi frá því klukkan fjögur.. Hlakka bara til að fá að sofa með 307 unglingum á Hvammstanga, getur varla verið ónæðissamara eða hvað?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband