Færsluflokkur: Bloggar

Allir verða hamingjusamir?

Þolrifin í mér eru ekkert sérstaklega þolin en nú eru þau nærri þanmörkum. Veikindi heimasætunnar ætla engan endi að taka. Ef að ég er heppinn þá fær hún útbrot í dag eða morgun og þetta er myslingabróðir. Og allir verða hamingjusamir. Þessi tilvitunun er í Snorra Dónaldsson heimilislækni á Sauðárkróki.

Góðu fréttirnar eru að ég keypti sex flugmiða áðan, til Hollands. Kemur það nokkrum á óvart? Maður verður bara eitthvað svo frústereraður....


Ekki baun

Úff, það er bísna skelfileg tilhugsun að vera heima með veikt barn og vera kaffilaus. Kaffibaunalaus að minnsta kosti, gæti hugsanlega leynst malað kaffi einhvers staðar ef vel væri leitað.

Helgin var alveg rosalega skemmtileg. Byrjaði á að skíra Gabríel Jökul, fyrrum nágranna minn og að því loknu fórum við hjónin yfir í Hóla og fórum í góðra vina hópi á þorrablót. Oftast og yfirleitt klikka Hóla-og Viðvíkurblótin ekki en þetta var alveg frábært. Bjarki frá Hofdölum ætti að fá tilnefningu til Óskars fyrir einstæða túlkun á Geir Haarde og Pálma í Garðakoti, Einar Svavars átti sömuleiðis stórleik og allir stóðu sig geysilega vel.


Hratt flýgur stund

Það er ekkert annað, bara kominn febrúar. Veit ekki alveg hvað mér finnst um það. Næst þegar ég ranka við mér verð ég líklega komin á dvalarheimilið.


Saumaklúbbur í aðsigi

Jæja, nú tek ég töluverða áhættu: Tölvupósturinn minn er bilaður og því ætla ég að auglýsa saumaklúbb á öldum veraldarvefsins. Sem sagt, þið sem eruð í sama saumaklúbbi og ég, verið velkomnar á sama tíma, sama stað.. 

Til útskýringa fyrir sauðsvartan almúgan, þá erum við nokkrar ungar og uppteknar konur úr dreifðum byggðum Skagafjarðar saman í saumaklúbb. Við þurfum alltaf að minna hvor aðra á, því við þurfum að muna svo margt annað . Stundum eru karlarnir okkar ekki heima (þegar þeir ættu með réttu að vera heima að gæta barna sinna), þá þarf að græja pössun o.sv.frv. Þannig að það veitir ekki af að auglýsa saumaklúbb á mánudegi, eigi hann að vera á fimmtudegi.


Þarfaþing Köööpthings

Skil ekki hvað fólk er svekkt með jólagjöfina sína frá Kaupþingi, áður KB banka.

Ein kona sem ég kom til notar hana sem tehettu yfir ketil, í öðru húsi er hún hirsla fyrir gluggapóst og tengdamamma notaði hana til að halda heitri rófustöppu á leiðinni á þorrablót. Ég nota mína fyrir ávaxtaskál. En hún er kannski ekkert æðislega falleg en notagildið er nú alltaf númer eitt.

 


Ísland er handboltaþjóð

Merkilegur dagur á mánudaginn var en þá horfuðum við mæðgin í fyrsta sinn saman á handboltaleik. Leikurinn byrjaði mjög vel, strákarnir okkar komust strax yfir. Eymundur Ás hrópaði við hvert mark: Við vinnum! eða Við erum búin að vinna! Ísland vinnur og fleira í þeim dúr. En ég sem er jafn gömul og á grönum má sjá og hef horft á svo marga handboltaleiki sem byrjuðu vel, var sífellt með úrtölur og reyndi að útskýra fyrir ungviðinu að það væri ekki spurt fyrr en að leikslokum.

Eymundur Ás er ungur og bjartsýnn og naut þess örugglega mun betur en ég að horfa á leikinn í sinni sigurvissu. Ég beið milli vonar og ótta eftir slæma kaflanum; sem kom aldrei.


Döpur ljóð og daufleg sönglög

Átti mjög ánægjulegt símtal við Jóhannes vin minn Dagsson fyrir nokkru. Bar ég upp við hann hversu óspennandi mér þótti ljóðabókin sem sópaði að sér verðlaunum fyrir jólin. Og auðvitað var hann mér sammála um að bókin markaði engin tímamót. Alveg einkennilegt að við tvö séum í minnihluta á móti bókmenntaelítu. Oft erum við Jóhannes sammála um bókmenntir og efumst ekki augnablik um réttmæti okkar skoðanna fram yfir annarra.

Ekki get ég sagt að Eurjóvisjón lögin sem leikin voru í gærkvöldi hafi lyft mér langt á sveif. Enn er von, hið ramm skagfirska framlag Vonar á eftir að birtast lýðnum og auðvitað held ég með þeim ágætu piltum sem eru heimsfrægir hér í héraði og nærsveitum.

Heimasætan er komin á fúkkalyf við þrálátri eyrnabólgunni en Eymundur Ás ætlar í þrjú bíó.


Þorrinn á næsta leyti

Klassískt þorraveður þessa dagana, frost á Fróni eins og segir í laginu. Ég sé varla fram á að komast á nokkurt þorrablót, allavega ekki með Tótanum mínum. Ýmist eru messur "skömmu" eftir þær samkomur eða Tóti ekki viðlátinn. Hann þarf ýmist að vera í skólanum eða erlendis. Rifjaðist upp fyrir mér hvernig sóknarprestur einn hafði það, ekki fyrir svo löngu síðan meir að segja, en hann sagði einfaldlega við sóknarbörn sín: Hva, ætlið þið ekki að bjóða prestinum á þorrablót? Sem þau gerðu, auðvitað:-)


Af bókaláni og óláni

Ég fór á bókasafnið í gær. Skilaði bók sem ég fékk lánaða fyrir tveimur árum og hef verið hundelt af bókavörðunum fyrir. Meir að segja hitti ég bókavörð á Skólavörðustígnum í haust sem beraði tennurnar og gerði mér það ljóst að ég yrði að skila þessari bók, sem ég var þó búin að framlengja ca. 20 sinnum síðan ég tók hana. Ég lánaði hana nefnilega þriðja aðila og það var Agnar á Miklabæ. Mér varð til happs að kona ættuð úr Bolungavík er farin að vinna á bókasafninu. Hún hefur þekkt Agnar frá því hún var barn og sýndi m´r mikinn skilning og stuðning í þessu máli.

En ég tók fjórar aðrar bækur, eina ljóðabók sem var tilnefnd til verðlauna fyrir jólin. Af tillitssemi við höfundinn ætla ég ekki að nefna bókina, en sannast sagna er ég ekki hrifin af því sem ég hef lesið í henni.

Svo tók ég eina þýdda bænabók, hún er ætti að vera til á hverju heimili. eina þýdda sögu eftir franskan nóbelsverðlaunahöfund og einn íslenskan krimma eftir Ævar Örn Jósepsson. Líst verulega vel á þá bók. Hún verður spænd upp um helgina.


Stjörnu skilnaður

Mikið eru aðdáendur Magna leiðir og hissa, að hann skuli vera að skilja við konu sína, hana Eyrúnu. (Sem ég veit reyndar ekki hvort er satt eða logið). Mér finnst það mjög merkilegt þar sem að skilnaðir eru allt annað en sjaldgæfir í samfélaginu. Þar fyrir utan hafa þau hjú verið undir meira álagi en eðlilegt getur talist undanfarna mánuði.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband