Færsluflokkur: Bloggar

Gleðilegt nýtt ár

Gleðilegt ár þarna úti og bestu þakkir fyrir það liðna.

Ég hef komið ýmsu í verk það sem af er jólahátíðinni, búin að messa voða, voða, mikið og skíra mörg, mörg börn og sitt lítið af hverju. Því er ágætt að geta legið heima eins og sófakartafla í dag.  Árið í fyrra var okkur afar gott, bæði í einkalífi og starfi. Tóti vann marga stóra sigra enda var hann kjörinn íþróttamaður Skagafjarðar 2006. Óli óðalsbóndi á Kálfstöðum, vinur okkar, segir að þetta séu fjölskyldusigrar og það er mikið til í því.380_8028

Tvær vígslur fóru fram, fyrst hjónavígsla og svo prestsvígsla, báðar til mikilla bóta að því ég tel. Ég fór í tvær siglingar, til Svíþjóðar um páska með Þórgunni skilríkjalausa sem kom ekki að sök. Svo áttum við hjónin hveitibrauðsdaga í London í ágúst.vigslasg

Úr ræktun og hrossahaldi ber hæst að Völundur var taminn, þannig að nú eigum við Einar saman glænýjan reiðhest. Tóti keypti rautt mertryppi undan Orra sem á að verða ræktunarhryssa þegar fram í sækir. Ég ætlaði að halda ræktun góðhesta áfram (í óþökk hestamannsins á heimilinu) en Grána mín hélt ekki. Við eignuðumst óskilgetið folald undan fyrstu verðlauna hryssunni okkar.

Við eignuðumst líka nýja frænda, hann Jörund Örvar sem er orðinn svaka stór þó hann sé rétt hálfs árs. jöri

Hvað boðar nýárs blessuð sól? Guð má vita hvar við dönsum næstu jól;-)


Messað í Hvammi

Alltaf gaman að koma út á Skaga.

Hvammur2 copy.bmp


Óskir um gleðileg jól

Nú sendi ég öllum ættingjum, vinum og kunningum bestu óskir um gleðileg jól. Á þetta sérstaklega við um þau sem ég ætlaði að senda jólakort og sendi ekki; þeim sem ég hefði átt að senda jólakort og þeim sem ég mundi alls ekki eftir að senda jólakort.

 


Grýla, vinkona Jónu

Mamma, Grýla er ekki dauð. Nú, hvað ertu að segja? Nei, hún Jóna (leikskólakennari) þekkir hana. Þær eru vinkonur. Er það satt? Já, þær hittust á hárgreiðslustofu.

Ímyndunarafl fjögurra ára barna getur verið ansi fjörugt.


Mamma.is

Í trausti þess að tengdamamma lesi ekki bloggið mitt á næstunni, verð ég að senda frá mér yfirlýsingu: Mamma mín bakar bestu vanilluhringina, bestu loftkökurnar og bestu lagterturnar. Þetta allt kom hún með í gær, blessuð. Á sama tíma var ég að úða í mig kökum og skola þeim niður með heitu súkkulaði á litlu jólum eldri borgara. Er þetta ekki mamma.is?

 


Rauð jól eða hvít?

Eftir froststillur í desember kemur rigning og rok. Jólunum er alveg sama hvort þau séu rauð eða hvít.


Pattaralegur prestur

Líklega er jafn gott fyrir Sigríði, með tilliti til holdafars, að hún er ekki ráðin nema í nokkra mánuði sem sálusorgari Króksara. Tvö kvöld í röð hef ég verið boðin í miklar matarveislur og sér ekki fyrir endann á veisluhöldunum. Fagnaðarerindið verður ekki boðað á fastandi maga.


Baggalútur

Baggalútur er svo ótrúlega meinfyndinn núna. Hvet ykkur til að skoða: www.baggalutur.is

 


Er ég krabbi?

"Himintunglin varpa ljósi á hinar fjölmörgu mótsagnir í lífi krabbans upp á síðkastið. Hann sýnir veikleika sína og knésetur sterkan einstakling fyrir vikið, eða setur sjálfan sig í síðasta sæti og er valinn sem leiðtogi."


Gleði í hjarta og sinni fyrir jólin

Jólin eiga hug minn og hjarta þessa dagana. Er eins og ofvirkur krakki með lágmark þrjár predikanir í bakhöfðinu.

Mér til andlegrar upplyftingar fór ég í Nesið á aðventukvöld um helgina. Það var mjög skemmtilegt í alla staði. Þar er lítill en skínandi góður kirkjukór, Arna Bjarna hélt frábæra hugvekju og Rípurkirkja er bæði falleg og hlý (sem er alls ekki sjálfgefið þegar gamlar sveitakirkjur eiga í hlut). Verst að ég gleymdi að fara í kaffi á eftir, fattaði það þegar ég var komin út að Keflavík. Get verið sunnan við mig stundum.

Svei mér, ef að ég er ekki ágæt í að forgangsraða. Er búin að kaupa mér jólakjól, baka smákökur, kaupa jólagjöf handa Tóta og bræðrabörnum mínum og systursonum Tóta. Eymund Ás dreymir um King Kong með tveimur risaeðlum sem fæst í Leikbæ. Öðrum bókmenntum hefur ekki verið litið við undanfarna viku en Leikbækjarbæklingnum með King Konginum og risaeðlunum tveimur. Málið er í nefnd.

Erum barasta kampakát enda hjálpræðið á næsta leiti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband