Færsluflokkur: Bloggar

Heimsent kleinupartý

Ekki þarf mikið til að gleðja mig eins og margur veit. Tindastólsbörn glöddu mig ósegjanlega á laugardaginn var. Klukkan hálf fjögur þegar að við erum í þann mund að drekka miðdag eins og sagt er í útlöndum, er bankað. Þar var komin stúlka að falbjóða nýsteiktar kleinur til styrktar ungmennafélaginu Tindastóli. "Höfum bara partý..." sagði frumburðurinn og það varð úr; kleinupartý. Er virkilega ánægð með Tindastólsbörnin, þau koma reglulega og losa okkur við tómar dósir og flöskur en volgar kleinur.. þá kastaði tólfunum!

Kommakomment koma heimasætu í koll

Er þetta frétt? Hefði verið fréttnæmara ef að allir vinstri grænu hefðu komið á hjóli og strætó. Hann hlýtur að hafa verið próflaus þessi eini á hjólinu.

Svona leit bloggfærsla út sem ég skellti á netið í morgun, eftir að hafa lesið "frétt" um að allir nema einn hafi komið keyrandi á einkabíl á landþing Vinstri grænna. Þori ekki fyrir mitt litla líf að kommenta á fréttir framar, fékk yfir 20% þjóðarinnar, skv.skoðanakönnunum, þ.e.a.s alla Vinstri hreyfinguna grænt framboð upp á móti mér á einu augabragði. Sjálfskipaður talsmaður þeirra er varaþingmaður úr norðaustur kjördæmi. Hann sá alls ekkert fyndið við þessa frétt og ég ætla ekki að birta það sem hann hafði að athuga við mitt blogg, gaurinn getur notað sín eigin vefsvæði til að skamma fólk og vera leiðinlegur. En til að fyrirbyggja allan misskilning, þá var þetta aulablogg mitt ekki illa meint, síður en svo. Ég veit svo sem alveg að formanni hjólamannafélagsins þykir trúlega bara ágætt að fara sinna ferða á hjóli og ég bið hann hér með afsökunar á að láta mér detta annað til hugar en viðkomandi hafi full ökuréttindi og bið honum allrar Guðs blessunar.
Enginn skal þó hafa mig ofan af því að fréttnæmara hefði talist ef að allir vinstri grænu fundarmennirnir hefðu mætt hjólandi.


Íslandsklukkan

Er nokkur á öldum ljósvakans sem ég hef lánað Íslandsklukkuna?


Makkinn

Var ég búin að segja ykkur frá nýja makkanum? (Nei, Inga Heiða: Ekki nýja makanum..) Nú gerist verulega einfalt að setja inn myndir. Hér eru komin sýnishorn frá öskudeginum.

Enga klámhunda, takk..

Nú sem endranær er ég stolt af íslenskum bændum.
mbl.is Framleiðendum klámefnis vísað frá Hótel Sögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Súpermann og kisa

Ekki laust við að það sé spennufall eftir að koma Súpermann í leikskólann og lítilli kisu til dagmömmu. Öskudagur er óumdeilt einn merkilegasti dagur ársins.

Seint fyrnast fornar lygar(?)

Skyldi fólk vera alveg hætt að skammast sín? Á forsíðu Blaðsins í dag "játar" fyrrum blaðamaður og ritstjóri að hann hafi skáldað upp heilu viðtölin við fyrrum forsætisráðherra, Steingrím Hermannsson. Umræddur forsætisráðherra var þekktur fyrir að vera ekki sérlega minnungur og því varla við því að búast að hann myndi nokkuð eftir þessum uppdiktuðu skrifum, áratugum síðar enda eflaust komin fast að áttræðu. Ef ég hefði verið þessi blaðamaður, þá hefði ég bara leyft þessu atvinnuleyndarmáli að vera leyndarmál áfram.

Nú verður gaman að sjá hvort að þetta verði öðrum fordæmi og fjöldi manns viðurkenni gamlar syndir. Kannski fyrrverandi matráðskona gangi næst fram fyrir skjöldu og hreyki sér af því að hafa eldað skemmdan mat án þess að nokkur veiktist eða rútubílstjóri sem segist hafa keyrt fullur með hóp af fólki.


Ný skagfirsk ljóð

http://www.skagafjordur.com/index.php?pid=511&cid=7725
Mikið er ég stolt af Gísla kallinum að gefa út ljóðin sín. Ég mun kaupa þessa bók, þegar ég man eftir að trítla yfir Aðalgötuna til Herdísar og fjárfesta í eintaki.

Er mjög dugleg við að láta mér batna, búin að leggja mig og sofa í tuttugu mínútur. Svo er ég að baka gulrótaköku - í lækningaskyni, auðvitað.


Rúmlega hálft í hvoru

Ó, mig auma.. ég er svona hálfan sentimeter frá því að verða veikSideways . Hvenær er rétt tíminn til að leggjast í flesnu?

Af mat og matarvenjum

Nú er ég smám saman að átta mig á að líklega er áhugi minn á mat og matargerð að aukast. Ég elda svo sem ekkert meira en ég er vön en ég er farin að lesa matreiðslubækur mér til skemmtunar og hef það til merkis. Var að glugga í bókina Í matinn er þetta helst eftir Jóhönnu Vigdísi, fréttakonu með meiru og fyrrum nágranna minn úr Bergstaðastræti. Mæli eindregið með henni, þó ég sé ekki búin að prófa nema eina uppskrift.

Fyrir nokkru var vinkona mín að skipuleggja ferð erlendra túrista hingað til lands og þeir vildu hefja túrinn með því að fara á ekta íslenskt veitingahús í Reykjavík. Við eftirgrennslan reyndist það ekki til, nema þá Múlakaffi. Þetta rifjaðist upp fyrir mér áðan þegar við mæðgunar vorum að borða soðna ýsu með kartölfum og rúgbrauði og ómældu magni af smjöri. Þetta er einn sá matur sem krökkunum mínum þykir bestur og okkur foreldrunum líka. Held að soðning með kartölfum, rúgbrauði og sméri sé hinn raunverulegi þjóðarréttur Íslendinga. En eldhúsið hér í Jöklatúninu var engu að síður með mjög alþjóðlegu yfirbragði, þrátt fyrir soðnu ýsuna, því dóttirin á í mikilli sjálfstæðisbaráttu og vill borða sjálf. Fiskurinn vildi tolla illa á gafflinum, svo hún brá á það ráð að stinga upp í sig með hendinni eins og Indverjar gera. Ekki það að ég hafi nokkurn tíma til Indlands komið en vann fyrir langa löngu með indverskum kokkum sem settust á hækjur sér og borðuðu, hnífaparalaust, hverskonar mat. Þetta fór allt mjög snyrtilega fram, annað en hægt er segja um borðhald heimasætunnar, því miður. En nú er hún sofnuð blessunin, best að nota tímann til að þrífa til í eldhúsinu.

Það er engin þörf að kvarta þegar blessuð sólin skín. Og nú skín sólin.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband