Færsluflokkur: Bloggar

Menningin uppmáluð

Mikið hlakka ég til að fara á Sæluviku. Ef að marka má heimasíðu sveitarfélagsins er sæluvikustykki leikfélagsins Sex í sveit. Líklega var það seint á síðustu öld sem við hjúin sáum þennan farsa í Borgarleikhúsinu. Og ég hló og ég hló og hló.

Skattur og fattur..

Nenni ekki að gera skattaskýrsluna. Finndist eiginlega að ég mætti sleppa við það í ár, vegna nýstofnaðra náinna kynna við Siglfirðinga. En þar er einmitt skattstofa.


Læti í veðrinu

Snjóflóð og læti á Siglufjarðarvegi svo enginn kemst þangað nema fuglinn fljúgandi. Hestamaðurinn keyrði eins og ljón austur á firði. Hringdi og sagði konunni að hann kæmi varla aftur fyrr en í vor.

Afleysing afstaðin

Þá er að skila af sér sauðunum á Sauðárkróki með trega í hjarta. Ef að Jón Ársæll myndi taka viðtal við mig þá sæist blika á tár.

Á þjóðvegi 1

Aðalpæjurnar ég og Gugga pugg, verðum á þjóðvegi 1 á morgun. Veitum eiginhandaráritanir í Staðarskála og Hyrnunni.

Skammvinn hreinsun

Fékk svo svæsna hálsbólgu um helgina eins og fram hefur komið áður, að allt sem mér vanalega þótti gott á bragðið varð voða voða vont á bragðið. Meira að segja sódavatn. Í tilefni af því ákvað ég að fara í koffín hreinsun og hætta að drekka kaffi. Það bindindi stóð í þrjá daga. Gott að ég er ekki í harðari efnum, fyrst sjálfstjórnin er ekki meiri en raun ber vitni.

Af Rómarvillu og kenjóttum kokkum

Nú veit heimasætan fyrrvernandi ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Góðir menn í prestastétt hafa fengið þá furðulegu flugu í höfuðið að sameinast kaþólsku kirkjunni. Mér hugnast það ekki beinlínis. Þeir verða þá að létta dálítið upp á sér þarna í Róm, t.d. í sambandi við getnaðarvarnir, fóstureyðingar og prestvígslu kvenna.

50% heimilisfólksins er komið á fúkkalyf. Frumburðurinn fékk ígerð í fingur og móðir hans sem hefði ekki látið kíkja á sig, nema af því að hún þurfti hvort eð var að fara með drenginn, greindist með streptókokka. Það eru slæmir kokkar. Kokkarnir í Skaffó eru hinsvegar fyrirmyndar kokkar, mæli með þeim.


Sei sei

Ætli fleiri skyldmenni frelsarans séu þarna á svæðinu?
Er farin í kakó til Möggu ömmu. Þvílíkur mannauður sem býr í blessuðum eldri borgurunum.
mbl.is Jesús býr í Burnley
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farið á svig við settar reglur

Hélt að skýrar reglur giltu um að mömmur yrðu ekki veikar. Er farin að halda þær hafi verið brotnar í mínu tilviki. Ég sem á bæði börn og sóknarbörn. En blessuð litlu börnin eru orðin hress sem betur fer.

Fríhelgi í námi og uppnámi

Var eiginlega búin að hlakka til að eiga frí um helgina í rólegheitum. Þá mundi heimilisfaðirinn að hann þarf að kenna sínum nemendum sem sjálfir eiga að halda námskeið og kenna öðrum, bæði laugardag og sunnudag.. Svo tók einkasonurinn að láta ófriðlega í nótt og situr náfölur með æludall í stofusófanum og horfir á Tomma og Jenna. Ofbeldissenur þeirra félaganna verða vonandi til að bæta heilsufarið, allavega geðheilsuna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband