Færsluflokkur: Bloggar

Útsvar

Ég, ekki-keppnismanneskjan, varð næstum því tapsár í kvöld. En það var ekki við menn að eiga eins og Óli segir. Bót í máli að vera þó með skemmtilegasta liðið.

OMA eða hvað?

Eftir mikla umræður um athyglisbrest er ég viss um að vera haldin athyglisbresti. Því til staðfestingar er eftirfarandi: Fór á textavarpið og rennti á leifturhraða yfir dagskrá kvöldins á RUV. Sá að var að byrja ný syrpa af dönskum þætti sem heitir Klovn. Og ég hugsaði með mér: Frábært! Ný sería af sakamálaþætti! Ég inn í eldhús, kveiki á sjónvarpinu (húshjálpin var að horfa á Doktor House í stofunni). Byrja að horfa og eftir ca. tíu mínútna gláp án mikilla tíðinda átta ég mig á að þetta er gamanþáttur (hefði nafnið ekki átt að gefa mér vísbendingu um það?). Meira að segja ágætlega skemmtilegur gamanþáttur.
Ef að ég er ekki með athyglisbrest, þá gæti þetta verið lesblinda.. Svo er ég auðvitað ljóshærð, það hjálpar varla..
En framundan er fátt eitt annað en halda áfram að vera í veikindafrí nokkra daga, baka svo slatta af bollum um helgina, ekki tel ég það eftir mér, nema síður sé. Þannig er nú það.

Heimaveik húsmóðir

Ég verð að horfast í augu við það súra epli að ég er ekkert góð í að vera í veikindafríi. Svo heppilega vill til að vart er hundi út sigandi fyrir roki þannig að varla er stætt. Ég reyni að snúast í kringum krakkana mína og dáðst að því hvað þau eru falleg og gáfuð eins og allar mæður gera, aðeins að glugga í bækur og horfa á handbolta, sem er frekar mannskemmandi íþrótt að mínu viti, eða lesa reiðiblogg um borgarmálin. Líklega væri mitt besta útspil í stöðunni að biðja fyrir nýja meirihlutanum og gamla meirihlutanum. Það ætti ég þó að geta þrátt fyrir allt.

Home sweet home..

Líklega er nauðsynlegt fyrir fólk að verða veikt öðru hvoru til þess að kunna að meta að vera heilbrigt? Er komin heim og hef oft haft það betra.

Jæja þá..

er laus við kirtlana. Sé mest eftir að hafa ekki látið taka botnlangann í leiðinni. Er stödd á sjúkrhóteli Siggu frænku. Kannski ég geti fengið Dag B. til að líta á mig, hann er hálf atvinnulaus karlgreyið og hefur eflaust rýmri tíma eftir þetta dæmalausa útspil Ólafs og sjallanna.

En París er æðisleg borg, það ég vottað. Þar er eiginlega allt flottast; Lourve safnið er ótrúlega flott, andrúmsloftið í Notre Dame er algjörlega magnað, Effelturinn bísna hár og voða gott að borða. Fór að ráðum Ölmu og var dugleg að borða og hefur það sennilega orðið mér til lífs í dag. Hér skiptast á hóglífi og meinlæti.

Ég held að ég sé að hressast, allavega er ég nógu hress til sakna barnanna minna.

Yfir og út.


Sitt af hvoru tagi

Í janúar hef ég, meiri áhyggjur af holdafari mínu en í öðrum mánuðum og svo mun vera um fleiri. Á bók eftir amerískan lækni og líkamsræktarfrömuð sem heitir Líkami fyrir lífið fyrir konur og ákvað að glugga í hana. Samkvæmt hennar kenningum er ég og fólk með sama vaxtalag líklegra til að fá ýmsa stórhættulega sjúkdóma, eins og krabbamein og hjartasjúkdóma. Konur sem fitna á lærum og rassi eru í miklu betri málum. Ekki nema eitt ráð við þessu að reyna að brenna mör og er það komið á forgangslista. Mér hefur alltaf þótt nauðsynlegt að hreyfa mig og tel það ásamt fleiru lykil að góðri geðheilsu. Á móti kemur að mér finnst voðalega gott að borða og borða þess vegna oft óhóflega. Vandlifað í veröldinni.
Ætla að taka mér frí um helgina og fara með hestamanninn suður til Parísar. Það verður kærkomið en Adam verður ekki lengi í Paradís, á þriðjudaginn ætlar Stokkhólmabóndinn að kippa úr mér hálskirtlunum. Þá verð ég að leggja niður mína uppáhalds iðju, sem er að borða, allavega um stundarsakir.
Hér leikur allt í lyndi; börnin frísk, Marie byrjuð í Fjölbraut og Tóti komin með fullt hús af gæðingum til að þeysa á. Hvað er hægt að biðja um meira?

Ég lifi - í Jesú nafni..

Alltaf ágætt þegar að Stubbaferðir eru afstaðnar og allir komnir til síns heima í heilu lagi.

Elsku kallarnir

í Heimi. Búnir að dubba sig upp og keyra suður á Álftanes og fá svo enga rósina hjá henni Dorrit. Þeir fóru af stað fullir eftirvæntinar og einn hafði meira að segja gert sér vonir um að forsetafrúin yrði búin að steikja kleinur í tilefni dagsins. En hún var búin að smyrja snittur, blessuð.

Þrettándatónleikar

Stundum er okkur Skagfirðingum, tala nú ekki um Blöndhlíðingum, legið á hálsi fyrir að vera óþarflega roggin af uppruna okkar, þannig að jaðri við hroka. Ég hef sannarlega reynt að taka þetta til mín. Í gærkvöldi helltist svo yfir mig þetta skagfirska þjóðernisstolt þegar ég hlustaði á Karlakórinn Heimi flytja dagskrá um Stefán Íslandi. Mjög svo mikið lagt í þessa sýningu sem tókst vel í alla staði, ótrúlega vel m.a.v. að vera sett upp í íþróttahúsi en forseti sveitarstjórnar lofaði að Miðgarður menningarhús opnaði síðar á þessu ári. Vonandi gengur það eftir.

Nýtt ár með nýjar spurningar

Er ekki bara komið nýtt ár, svei mér þá! Ég er enn með snert af áramótþunglyndi, það er mjög leiðigjarn kvilli en sem betur fer gengur það yfirleitt yfir af sjálfu sér. Í því sambandi er ég að velta fyrir mér ýmsum krefjandi spurningum, eins og a) Er ég að verða gömul? b) Af hverju langar mig ekki lengur á þrettándaballið? c) Hvers vegna strengi ég ekki lengur áramótheit um nýjan og bættan lífstíl og stefni að því að missa tíu kíló fyrir vorið? d) Hvert fer ég í sumarbústað með hinum "gömlu" vinkonum mínum í ár? e) Hvers vegna ætlar Ástþór enn að bjóða sig fram til forseta?

En að öðru leyti er ég bara þokkaleg. Helgihald gekk vel fyrir sig um jól og áramót. Frá Þorláksmessu til áramóta komu á sjöunda hundrað manns til að taka þátt í helgihaldi. Get ekki verið annað en ánægð með.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband