Skáldatal og talað við skáld

Suma daga tekst mér að afkasta gríðarlega miklu og það gerðist einmitt í dag, eftir heldur aðgerðalitla daga. Ég ætla ekki að tala um dagana þar sem tíminn lekur eins og sandur milli fingranna og mér verður ekkert úr verki. Þó ég hafi verið svona dugleg, eyddi ég löngum tíma í að finna ljóð um jólin eftir Hannes Pé, skagfirzka skáldið góða. Af því að ég er einkadóttir foreldra minna finnst mér bæði eðlilegt og sjálfsagt að þau taki virkan þátt í lífi mínu og ég lét þau hjálpa mér að leita. Þeim til lítillar gleði. Fyrir rest segir mamma við mig, ögn snúin: Því hringir þú ekki bara í kallinn og spyrð hann sjálfan um þetta ljóð? Og það varð úr, ég hringdi í kallinn og hann var ljúfur eins og lamb og greiddi úr vanda mínum hratt og örugglega. Honum fannst Krókurinn skemmtilegur eins og hann var, ég reyndi að segja honum að hann væri enn skemmtilegur en er ekki viss um að hann hafi trúað mér.

Það á að gefa börnum brauð, rúgbrauð

Mamma hefur bakað rúgbrauð frá því að elstu menn muna. Hún setur brauðið í ofninn undir kvöld og seyðir yfir nótt. Um daginn kvartaði hún undan að hún hefði feilreiknað sig og mátt fara ofan í rauða bítið til að taka út rúgbrauðið. Ég hló að óförum mömmu og fannst þetta alveg svakalega fyndið, svona í ljósi þess að hún er enginn byrjandi í rúgbrauðsgerð. En mér hefndist fyrir. Í gær ætlaði ég sjálf að baka rúgbrauð og fer að blanda saman rúgmélinu og heilhveitinu upp úr hádegi. Hvað haldið þið? Engin súrmjólk til í kotinu og ég hugsa að ég komi við hjá Ásgeiri frænda mínum um leið og ég sæki Þórgunni og kaupi súrmjólk. Það var um fjögurleytið og við mægðurnar, Þórgunnur og ég vorum að setja rúgbrauðið í ofninn að ganga fimm. Varð að fara fram úr klukkan hálf þrjú til að taka brauðið út. Ætla ekki að hlægja að henni móður minni á næstunni.

Tónlist og helgihald um helgina

Þetta var ágæt helgi og ánægjuleg. Ég náði að vera viðstödd ferna tónleika af ólíkum toga, fyrst sungu leikskólabörnin á Glaðheimum fyrir foreldra sína á föstudagsmorgun, svo Frostrósir og frostpinnar í íþróttahöllinni á Akureyri á föstudagskvöld. Í gær hlustuðum við mæðgurnar á sönghóp eldri borgara syngja í Skaffó og í dag spilaði frumburðurinn á sínum fyrstu jólatónleikum.

Þriðji kvenpresturinn í fjölskyldunni tók víglsu á Hólum í dag. Það er hún Ursúla móðursystir mín en hún ætlar að þjóna Skagstrendingum og nærsveitungum. Ekki amalegt að fá hana í nágrennið.

IMG_0326

 

IMG_0330

 


Sund, allra meina bót

Ég fór í sund! Í fyrsta skipti í tvo mánuði. Það var aldeilis frábært og ótrúlega notalegt í morgunrökkrinu. Svona er nú lífið ágætt.

Nýjasta á náttborðinu

Ég er að lesa og lesa. Nú les ég Ég skal vera Grýla, viðtalsbók við Margréti Pálu, Hjallastefnu ofurfóstru. Mjög skemmtileg bók aflestrar enda um stórmerkilega konu. Þessa bók mæli ég með að allir lesi.

Statt upp og gakk

Hitti Bjarka bæklunarlækni í gær. Hann sagði statt upp og gakk, sem ég gerði og labbaði út um allt. Fékk töluverð eftirköst í nótt, hélt að væri að kvikna í fætinum og svitinn lak af honum. Ég ætla mér að taka þetta á jákvæðninni, eitt skref í einu; dag í senn eða eitt andartak í einu..

Af kettinum og umferðarpestum

Hér er óvísindaleg könnun í gangi. Er að athuga hvort að kötturinn sé virkilega sannspár eða hvort hann spái fyrir roki óvart eða þannig.
Er að skríða saman eftir langvarandi ælupesti. Það var nú meiri sendingin. ÞÞ byrjaði og gubbaði í tvo og hálfan sólarhring. Svo féll húsmóðirin í valinn en fékk ekki langan tíma til að jafna sig, því EÁ stimplaði sig inn aðfaranótt sunnudags. Síðasta gubb var í morgun og legg ég svo á og mæli um að þessu tímabili sé lokið.

Svæðisútvarp áfram

Enn og aftur fæ ég grunsemdir mínar um að tvær þjóðir búi í landinu staðfestar. Blessaður útvarpsstjórinn gerir sér enga grein fyrir raunverulegu hlutverki ríkisútvarpsins, hvað þá að hann hafi áttað sig á að svæðisútvörpin stæðu undir sér með eigin auglýsingatekjum. Sem betur fer hefur verið hætt við að leggja niður svæðisstöðvar RUV.

Annir

Hér er annríki og vetrarríki.
Búin að kaupa jólaföt á afkvæmin og er mikið fegin að missa þau ekki í jólaköttinn. Svo verða bakaðar smákökur síðdegis, fyrir sex ára og eldri kl.15-16 og sex ára og yngri kl.16-17. Segið svo að ég sé óskipulögð...

Meðvirk?

Mér er alveg vita ómögulegt að segja upp Mogganum þegar svona stendur á.. en ég geri það líklega samt. Svo ég geti réttlætt ýmsa annarskonar eyðslu, múúhhhahahahaaa
mbl.is Unnið að lausn á fjármálum Árvakurs í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband