31.10.2008 | 08:10
Skáldin okkar góðu
Ég þarf ekki að kvarta undan hlutskipti mínu þessa dagana, því ég á þess kost að lesa spánýjar íslenskar bækur upp í rúmi meðan börnin eru í skóla og leikskóla. Í síðustu viku las ég Ofsa Einars Kárasonar. Hann er bara snillingur kallinn sá, þvílíkt sem hann er slyngur í persónusköpun. Frábærlega skemmtileg bók og dramatísk bók sem sækir efnivið í okkar glæstu fornbókmenntir. (Gott að rifja upp að við höfum ekki klúðrað öllu í gegnum tíðina).
Núna er komin á náttborðið Skaparinn eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Mér líst vel á þá bók sem af er, nóg af sársauka enda aðalsögupersónan móðir stúlku með lystarstol, sem hlýtur að vera algjörlega hræðilegur sjúkdómur. Á eftir að átta mig á hinni aðalpersónunni sem er skaparinn í sögunni, kynlífsdúkkugerðarmaður og virðist vera voðalega einn í heiminum greyið. Guðrún Eva skrifar flottan texta og massívan.
Mér hefur löngum verið sáluhjálp í lestri góðra bókmennta og hvet ykkur til að líta í bók til að lyfta andanum, nóg er af góðum bókum og við getum verið stolt af íslenskum frásagnararfi og rithöfundum. Íslenskt, já takk.
Athugasemdir
Get bent þér á eina íslenska bók í viðbót sem er að skríða í bókabúðir um þessar mundir. Hún heitir Sá einhverfi og við hin og er eftir Jónu Á. Gísladóttur. Jóna þessi mun vera móðir einhverfs drengs svo þetta er trúlega lífsreynslusaga hennar. Hef stundum lesið bloggpistla þessarar konu og hún hefur skemmtilegan frásagnarstíl.
Annars góðan bata
Ásta Ólöf Jónsdóttir (IP-tala skráð) 31.10.2008 kl. 20:06
Takk fyrir skemmtilegt innlegg í hundahreinsunarumræðu! Ég varð aldrei svo frægur að taka þátt í þessum slag og ég skil vel að Hjörsi hafi ekki verið sáttur við aðfarirnar. En haltu áfram að lesa og ég sendi góðar batakveðjur að sunnan.
Eyþór Árnason, 2.11.2008 kl. 23:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.