Nú er ég komin norður í land

Gat ekki stillt mig um að skella inn svo sem einni færslu þó ég sé sólbrunnin, vegmóð og veðurbarin eftir landsmótsferð á suðurland. Ég hafði það svo ótrúlega gott hjá heiðurshjónunum Guggu og Hreini. Oddi er höfuðból að fornu og nýju og rifjaðist upp fyrir mér gamalgróinn rígur milli foreldra minna um "hvorir séu betri" Oddaverjar eða Ásbirningar. Hef örugglega einhvern tíma bloggað um það stórskemmtilega ágreiningsmál gömlu hjónanna. Gugga er ótrúlegur töffari, skellti sér í hópreiðina á setningu landsmótsins (óvenju fáir skiptu um hestamannafélag á þessu landsmóti, hahaha..) og það sem meira var, henni tókst að halda athygli rallhálfra hestamanna með athyglisbrest á háu stigi með skemmtilegri hugvekju. Hitti marga vini og kunningja sá mörg voðalega fín hross og er mjög ánægð með frammistöðu Tótans (fyrir utan að hann gat ekki unnið þessa bíldruslu sem ég var í huganum farin snattast á, en þar sem ég er atvinnumanneskja í að fyrirgefa eins og einhver sagði, þá erfi ég það ekkert við kallinn). Tóti varð þriðji í A-flokki gæðinga með Tind frá Varmalæk og stóð sig ágætlega með hin hrossin sem hann sýndi og keppti á. Ef að ég hefði verið spurð álits þá hefði mér ekki fundist neitt að því að hann fengi verðlaun fyrir prúðmannlega reiðmennsku. Enn ég var sem sagt ekki spurð.Svo er ég bísna ánægð með sjálfa mig eftir að keyrt norður á Hvammstanga með RISA hjólhýsi í eftirdragi. Axlirnar á mér numu við eyru langleiðina upp í Borgarfjörð en eftir það fór ég slakna. Oft var löng runa af bílum á eftir mér og ég var næstum eins og Bessi Bjarna í útvarp umferðaráð um árið, hann var lestarstjóri og hleypti engum fram úr. Krakkarnir virðast hafa haft gott af aðskilnaði við foreldra sína. Eymundur Ás er alsæll, hann sá Kunfú Pöndu í bíó: Mamma; ég dó næstum úr hlátri, hún var svo fyndin!! Á laugardaginn fóru Siggurnar með unga manninn í Kringluna og hafa sennilega keypt allt sem honum datt í hug að biðja um, óháð notagildi og/eða hollustu. T.d. vissi ég ekki að sleikjó með blikkljósi væri til (?) Sannkallað þarfaþing. Orðaforði Þórgunnar hefur aukist mjög. Hún talar gullaldar íslensku eftir samvistir við ömmu og afa í Tungu undanfarnar vikur og er miklu líkari eldri borgara en leikskólabarni í tali.Góða nótt...

IMG_0031

 

 Til vinstri er Tóti í verðlauna afhendingu á Þóru Þokudóttur í flokki fimm vetra hryssna. Rósa og Bergur eru hrossaræktendur sem fara ekki alltaf troðnar slóðir og þau áttu þessa fínu meri, Heklu setna af Bjarna Jónassyni.

    

IMG_0029 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir síðast Sigga!

Það vantaði eitthvað í morgunkaffinu og spjallinu í morgun, það var heldur litlaust bara við tvö hjónin.  Skemmtileg færsla um síðustu daga.

Heyrumst

Gugga (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 09:47

2 identicon

Snilldarfærsla hjá þér :) hahahhaha .. ég verð greinilega að sjá Kúngfú Pöndu!

Nú fer ég að mæta á Norðurlandið ... og ég var einmitt líka búin að sjá það fyrir mér að við færum á rúntinn saman á glænýrri Toyota!

 Sjáumst hressar.

Inga Heiða (IP-tala skráð) 8.7.2008 kl. 10:05

3 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Ekki sá ég þig á Hellu, sá samt Tóta nokkrum sinnum á tölvuskjánum framan við mig, enda með mág þinn mér á hægri hönd.

En jeppinn er forljótur á litinn svo þú varst bara heppin að Tóti vann hann ekki.

Rúnar Birgir Gíslason, 9.7.2008 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband