11.7.2008 | 21:23
Minna er meira
Þegar fjölskyldan er sameinuð á ný var ákveðið að fara í ferðalag. Mesti óþarfi að fara langt til að skemmta sér vel. Þær Hrefna og Alma voru í krúttlegri hestaferð um fjöll og firnindi austan Akureyrar (ef að allt hefði verið á áætlun hefðum við hjónakornin ugglaust verið með í ferðinni) en þess í stað mæltum við okkur mót í Fnjóskadal í gærkvöldi. Grilluðum inn í skógarrjóðri og höfðum það huggulegt og uppfylltum langþráðan draum barnanna um lautarferð. Fátt getur toppað lautarferð með grilli staðhæfði Eymundur Ás og það er alveg rétt hjá honum. Áttum ljómandi kvöldstund, með skaðbrenndum reiðkonum vindanna og fjölskyldum þeirra. En fyrst var farið í sund á Illugastöðum, allir nema ég auðvitað. Mig dreymir um að vera í bústað á Illugastöðum seinnipart sumars og tína ber Þingeyinga:-)Þegar allir stóðu á blístri og sólin var farin bak við fjöllin héldu reiðkonurnar sólbrunnu í tjaldið sitt, karlar heim með börn og ungling en við fórum hinsvegar enn austar og gistum á hótel Eddu á Stórutjörnum. Það var ekki lítið spennandi fannst Eymundi Ás sem rak ekki minni til að hafa áður gist á hóteli. Þar sváfum við sætt og vært og morgunhaninn vakti okkur óvenju seint eða um hálf níu. Kíktum á Goðafoss, Eymundur var jafn hrifinn og harðasti umhverfisverndarsinni og taldi sig jafnvel hafa séð glitta í eitt goð undir fossinum. Áttum lúxus kvöld hér í túninu og heimasætan lék við hvern sinn fingur og fór kollhnís, aftur og aftur aftur..Á morgun er svo brulllaup hennar Sollu og hans Sigga; hóglífinu er hvergi nærri lokið.
Athugasemdir
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 12.7.2008 kl. 18:20
Hlakka til að hitta ykkur ;o)
Gunna (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 19:28
krúttleg hestaferð? Okkur Ölmu fannst við nú bara heljarinnar kerlur sem þeystum um grýtta fjallvegi í þokunni, böðuðum okkur í ísköldum fjallalækjum og átum egg og beikon í árbít.
Hrefna (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 21:21
Heyr, heyr, Hrefna! Þetta var hörkupúl, sérstaklega þegar maður þurfti líka að smyrja sig mörgum sinnum á dag vegna sólbruna. Krúttlegheitin má kannski spyrða við krúttlegu tjaldbúðirnar (með einu tjaldi) ásamt krúttlegu hestagirðingunni með litlu krúttlegu mýflugunum. Ég tek undir með Eyma Ás, lautarferð í skógi með grilli er alveg dásamleg.
Alma (IP-tala skráð) 14.7.2008 kl. 23:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.