3.2.2008 | 22:11
Ný hlutverk og áskoranir
Ég reyni yfirleitt að draga úr verkefnum mínum en auka þau, því oftast finnst mér ég hafa nóg á minni könnu. En nú hef ég fengið nýtt verkefni og skemmtilegt. Þannig er mál með vexti að heimilishesturinn Glanni þarf að komast í form fyrir meistardeildina. Fyrir þau sem ekki vita er það röð móta sem á að halda í vetur. Fyrirkomulagið er þannig að sá vinnur sem stendur sig best, samanlagt á öllum mótunum. Þetta varð til þess að ég fór í reiðtúr í blíðskaparveðri í dag og skemmtum við Glanni okkur hið besta. Glanni er mósóttur og alls ekkert glannlegur, fæddur í Holtsmúla hinum syðri en undan afbragðs góðri hryssu frá Sæmundi Hermanns. Hann var tryppi þegar að Tóti keypti hann og hafði í huga að koma sér upp keppnishesti. Sem varð um stund, Tóti tamdi Glanna alveg dæmalaust vel, hann er taumléttur og sérstaklega þjáll en samt vel viljugur. Þeir félagarnir voru farnir að keppa í fimmgangi og fóru saman gegnum reiðkennaradeildina á Hólum og stóðu sig auðvitað með prýði. Blekið var varla þornað á reiðkennara skírteininu þegar Glanni heltist, þá líklega á sjöunda vetri og var úrskurðaður spattaður og ónýtur. Það voru mikil vonbrigði, eins og gefur að skilja. Glanni fór því út í haga þar sem hann stakk við lengi vel. Þolinmæði Tóta er annáluð (kannski þess vegna sem hann getur búið með mér?). Hann beið því hinn rólegasti og vonaði að helti Glanna myndi lagast. Að fjórum árum liðinum hætti Glanni að stinga við og fékk þá nýtt hlutverk og mjög mikilvægt að vera heimilishestur eins og Eymundur Ás kallar hann. Hann fetar undir krökkunum og er í senn sjúkraþjálfari og gleðigjafi fyrir ungdóminn, auk þess að vera reiðskjóti húsmóðurinnar. Glanni er því mesti gullmoli, þó að honum hafi ekki verið spáð vel á tímabili. Að lokum er rétt að geta þess að Glanni á keppa smalatölti sem er nýleg keppisgrein hér á klakanum en mikið stundað í henni Ameríku.
Mitt eigið veikindaleyfi endar senn, ég er stálslegin en vona þó að ég þurfi ekki að brýna raustina alveg strax.
Athugasemdir
Mikil gæfa er að eiga svona heimilishest sem getur glatt allra geð og verið öllum til góðs. Hef tröllatrú á honum hvort sem er í smalatölt, barnarölt eða skemmtibrölt.
Mbk, Alma heimilishestslausa
Alma (IP-tala skráð) 3.2.2008 kl. 23:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.