Af messugjörðum

Jæja, gott fólk (nú haldið þið eflaust að ég sé full, nei ekki svo gott), glaðvakandi nýkomin úr jólaboði og verð eflaust andvaka eftir maraþon kaffidrykkju.
Ég átti merkilegt samtal við kunninga minn í dag sem sagðist hafa farið í messu á Reykjavíkursvæðinu á jóladag og sagði farir sínar ekki sléttar. Hann sagði að fólk hefði talað saman allan tímann meðan á messugjörð stóð, sama hvort var undir sálmum, prédikun eða öðrum messuliðum. Þetta líkaði mér illa að heyra. Mínir sauðir hvorki hósta né stynja, enda vel aldir upp. Með einni undantekningu þó; Tóti varð að bera tveggja ára dóttur okkar gargandi út úr messu á aðfangadagskvöld, fimm ára bróðir hennar fyrirvarð sig fyrir uppátækið og felldi tár af því tilefni. Þetta atvik varð til að skipta kirkjugestum í tvær fylkingar; þá sem studdu aðgerðina að barnið var fjarlægt og hina sem fannst allt í lagi þó hún hefði gólað aðeins og vildu jafnvel að hún hefði fengið sínu framgegnt, að fá að fara til móður sinnar.
Að vanda var miðnæturmessan með rólegra yfirbragði en aftansöngurinn. Kirkjusókn er ágæt samkvæmt venju. Að því sögðu ætla ég í bólið. Só long.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rúnar Birgir Gíslason

Þessi lýsing þín á messugjörð í Reykjavík er samhljóma upplifun minni af messum í Danmörku. Fólk kann ekki að þegja og ber ekki þá virðingu sem maður er alinn upp, gagnvart kirkjunni og heilagleika messunnar.

Rúnar Birgir Gíslason, 29.12.2007 kl. 09:11

2 identicon

Sæl nafna mín og innilegar jólaog nýársóskir til ykkar allra.

Hún Soffía amma mín sagði alltaf þegar eitthvað óheppilegt hennti hana eða einhvern „Það kostar klof að ríða röftum“ (úr Svarfaðardalnum) annað hvort fer maður með börnin með sér og venur þau smámsaman við þá hegðun sem sæmir hverju tilefni, þótt því fylgi blóð sviti og tár, eða þá að þau eru geymd heima og hvorki sjá eða kynnast lífi foreldra sinna og annarra utan dyra sem er alldeilis óforsvaranlegt. Og eins og segir í textanum „reyndu aftur“ það gengur betur næst. Ég hef séð lítinn dreng sitja við fætur móður sinnar í messugjörð og fannst það ekki spilla hátíðleikanum. Hann situr núna mörgum árum seinna á fremsta bekk, búinn að læra þetta allt saman fyrir löngu. Segðu stóra bróður að litlar systur eigi það til að batna!! Með kveðjum úr sveitinni. Nafna

sigríður garðarsdóttir (IP-tala skráð) 29.12.2007 kl. 11:43

3 identicon

Sæl frænka.

Síðbúnar jólakveðjur frá okkur þremur.


Við misstum því miður af þessarri senu skvísunnar, hér bankaði frú Flensa uppá á þorláksmessukvöld. Svekkelsi en svona er þetta stundum.
Hvort rétt eða rangt sé að fjarðlægja barn, er það ekki á endanum alltaf ákvörðun foreldranna? ;-)  Og ég efast ekki um að foreldrarnir munu glaðir segja þessa sögu þegar daman eyðir fyrstu jólunum/jólaboði með góðum kærasta og hans fjölskyldu. Bróðirinn mun örugglega fá "uppreisn æru" :-) og brosa út í bæði.

Með áramótakveðju úr flensubælinu, hafði það sem best.
Sjáumst á nýju ári

Guðný og ormarnir tveir ( sem ekki góla í jólamessum ;-) )

Guðný (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 13:52

4 Smámynd: Stefán Jónsson

Sæl frú séra Sigríður.

Þakka þér fyrir alveg afbragðs messu á aðfangadag.
Mér fannst ekkert spilla hátíðleik hennar, nema kannski helst það að sjá þig ekki betur, en það er mikil synd því þú ert sannkallað augnayndi. Ég sat sko uppi á svölum og sá þig því aðeins þegar ég fékk að standa upp, sem var aðeins á allra hátíðlegustu stundunum. Þar sem ég á ekki von á að þú takir mikinn vaxtarkipp fyrir næstu messu sem ég mæti í, þá verð ég líklega að mæta fyrr og fá betra sæti.

Stefán Jónsson, 2.1.2008 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband