Af ágreiningsmálum hjóna í Túni

Þegar við hófum búskap hér á Sauðárkróki kom ég með þá framsæknu uppástungu að við keyptum okkur stiga eða öllu heldur tröppu þar sem lofthæð er óvenju mikil í Túninu okkar heima. Sú tillaga var algjörlega kolfelld í allsherjarnefnd, þar sem heimilisfaðirinn taldi óþarfa útgjöld og mesta bríarí að splæsa í slíkan lúxus grip sem áltrappa er. Það sem fæstir vita er að hér á heimilinu er háaloft. Þar er töluvert af dóti sem við erum ekki að nota dagsdaglega, eins og útilegudót, jólaskraut og barnaföt sem ég tímdi ekki að láta Rauða krossinn hafa EF svo ólíklega vildi til að storkurinn ætti leið hjá garði. (Hverjar eru líkurnar á því á Íslandi?) Upp á háaloft kemst enginn nema fuglinn fljúgandi og Tóti. Hann prílar þá upp á vaskaborðið í þvottahúsinu og vegur sig upp um lofthlerann með handafli og ég verð að rétt honum það sem á að fara upp og hann að rétta mér það sem á að fara niður. Þetta fjölgar heldur samverustundum okkar hjóna, eykur á samhæfni og samvinnu en fleiri kosti hefur mér ekki tekist að sjá út úr þessu fyrirkomulagi. Ekki láta ykkur detta til hugar að ég geti ekki líka farið upp á loft, ég gæti það alveg en ég vil ekki taka áhættuna á því að slasa mig.
Nú þyrfti ég að komast upp á loft því Elenora mágkona mín hringdi og bað mig að koma forláta Polarn og Pyret kuldagalla af Eymundi Ás á vinkonu sína sem er á leið til Danmerkur. Kuldagallinn er upp á lofti. Tóti er ekki heima. Sem þýðir að kuldagallinn fer ekki lönd né strönd. Svona er ástin, hún linar mann upp og lætur mann gefa eftir. Stundum verður að gefa eftir í hjónabandi. Ég gaf eftir þegar að ég fékk ekki að kaupa tröppuna fyrir tveimur árum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyþór Árnason

Ég keypti tröppu í fyrra og það er allt annað líf. Loksins næ ég allt sem ég þarf að ná. Svo þú skalt fá þér tröppu. Kveðja.

Eyþór Árnason, 31.10.2007 kl. 23:27

2 identicon

Hvernig er það Sigríður hefur þú ekki heyrt um Mjóafjarðaraðferðina: Framkvæma fyrst. Leggja svo í nefnd.

Með kveðju frá

Kolfreyjustað

Hildur Inga Rúnarsdóttir (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 09:00

3 Smámynd: Guðný Jóhannesdóttir

Sigga ég á tröppu til þess að lána þér :) Það er víst ekki nóg að eiga stóran mann þegar maður er svona stuttur

Guðný Jóhannesdóttir, 1.11.2007 kl. 10:50

4 identicon

Lífsins gæðum/tröppum er greinilega misskipt, á mínu heimili eru t.d. til 3 tröppur í mismunandi ástandi...

kv. Alma

Alma (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 20:01

5 identicon

Snilldarfærsla hjá þér, frænka! Þú verður bara að setja tröppu á jólagjafalistann :) En mér finnst að þú eigir að láta okkur Gunnu vita þegar þú kemur næst í borgina og við skipuleggjum smá stelpustund! Alveg kominn tími á það, þó það væri ekki nema að drekka saman einn kaffibolla (sko, hver með sinn bolla)

Inga Heiða (IP-tala skráð) 1.11.2007 kl. 21:20

6 Smámynd: Sigríður Gunnarsdóttir

Þakka allar góðar ráðleggingar. Ég splæsi á mig tröppu fyrir jólin.

Sigríður Gunnarsdóttir, 1.11.2007 kl. 22:44

7 identicon

Já Inga Heiða.. engin spurning, látum vaða í ALVÖRU stelpuhitting með kósíheitum og öllusaman. Gætum farið í Laugar-spa.. geggjað fyrir fátæka námsmenn í leit að innri frið.. og ekki er nú verra að hafa sérann með í það

Ooooogg.... láttu vaða í stiga í Kauffó og gerðu þetta sjálf, það er málið....

kveðja

Gunna

Gunna (IP-tala skráð) 4.11.2007 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband