Partýljónið ég

Nú er laugardagskvöld og ég var að koma heim úr brúðkaupi. Æðislega fín veisla get ég sagt ykkur og ég þykist vita að hún muni standa langt fram á morgun. Giftingin var á Silfrastöðum í litlu kirkjunni "minni". Ég ætlaði varla að trúa hvað var hægt að troða mikið af fólki í jafn litla kirkju. Steingrímur gamli á Silfrastöðum sem byggði hana fyrir meira en öld sagði þegar biskup kom í visitasíu og spurði hvað kirkjan tæki marga: Þetta er heljar mikil skjóða og tekur heilt helvíti. Þá var Silfrastaðakirkja í einkaeign en er nú í eigu safnaðarins. Steingrímur keypti síðar orgel ásamt Silfrastaðasöfnuði og deildist kostaðurinn til helminga. Svo slapp mús inn í kirkjuna og nagaði gat á orgelið og þurfti að fá viðgerðarmann til að laga skemmdina. Steingrímur sagði þá að músin hefði nagað orgelið safnaðarmegin, því honum þótti verra að þurfa leggja út fyrir viðgerðinni.

Í gærkvöldi héldum við Tóti boð, af því að okkur langaði til að hitta fólk. Það tókst ágætlega að því að okkur fannst, þökk sé Siffu mágkonu og Kára bró sem stóðu eldhús- og grill vaktina og öllum skemmtilegu vinum okkar sem mættu. Versta var að fólk kann sér ekki hóf og gaf okkur ósköpin öll af gjöfum, reyndar mjög fallegum og eigulegum gjöfum en sama var. Ég segi eins og Bjössi heitinn Hjálmars sagði einhver tíma eftir að hafa haldið upp á afmælið sitt: Vænst þótti mér um að ekki urðu nein illindi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband