18.6.2007 | 21:26
Þjóðhátíðarblogg
Langt síðan ég hef sest við skriftir, hef ekkert skrifað undanfarna daga nema undir visakvittanir. Við skelltum okkur í borg óttans á fimmtudaginn var, ég og börnin. Heimilisfaðirinn fór á undan okkur og er reyndar ekki enn kominn heim, því hann fór í langa og stranga keppnisferð sem ekki sér fyrir endann á. Hann fór sem sagt með gamla Rauð í úrtöku fyrir heimsmeistaramót og rambar á barmi heimsfrægðar. Held að það hafi verið Kuklið frekar en Tappi tíkarrass sem hafði einkunnarorðin "heimsyfirráð eða dauði" og þau gætu alveg átt við Tóta líka.
Við komum ýmsu í verk á skömmum tíma, ég skírði Guðmund Óla Jóhannsson og Elku, seinni part á laugardag en um morguninn heimsóttum við þann hámenningarlega stað Húsdýragarðinn. Krökkunum þótti það ekki ónýtt; sérstaklega að sjá seli í návígi, örn og refi. Þetta gekk allt eins og í sögu, alveg þar til heimasætan fyrrverandi ætlaði að fara í útskriftarveislu hjá Ninnu Sif, fornvinkonu sinni. Vildi ekki betur til en ég fann ekki veisluna, var næstum búin að knýja dyra í öllum hjöllum Hveragerðis en ekkert bólaði á Ninnu. Þá var ekki annað að gera en krúsa yfir Hellisheiðina og kúldra sig niður hjá kalli og krökkum enda stór dagur framundan. Við frænkurnar Inga Heiða og ég huggðumst fara í mikla göngu yfir Leggjabrjót á sunnudagsmorgni. Sem við gerðum og ótrúlegt en satt, fengum frábært veður á þjóðhátíðardeginu. Þetta var mjög þjóðleg ferð um forna þjóðleið milli Þingvallasveitar og Hvalfjarðar, Leifur fararstjóri flutti ljóð eftir Jónas og helstu þjóðskáldin á hverjum hól. Okkur grunaði að hann hafi laumað einhverju með eftir sjálfan sig en fáum líklega aldrei úr því skorið. Þetta var snilldarferð sem gerir ótrúlega mikið fyrir atvinnulausar húsmæður úr framsveitunum, gott veður og góður félagsskapur, er hægt að fara fram á meira?
Athugasemdir
Frábært að gangan hafi verið góð. Ég hlakka mikið til að komast í næstu göngu og vona að hún verði fyrr en seinna.
Til hamingju með manninn á barmi heimsfrægðar, eða var það Rauður.....hvort heldur sem er til lukku
Marta (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 09:16
Takk fyrir síðast, Sigga sykurpúði. Þetta var alveg stórskemmtileg ferð og ég er strax farin að hlakka til næstu ferðar! Ja hérna, það er ekki amalegt að eiga mann á barmi heimsfrægðar Spurning hvort þið hjónin verðið næstu Brad og Angelina ... pant vera au pair !!
Inga Heiða (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 09:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.