Af mat og matarvenjum

Nú er ég smám saman að átta mig á að líklega er áhugi minn á mat og matargerð að aukast. Ég elda svo sem ekkert meira en ég er vön en ég er farin að lesa matreiðslubækur mér til skemmtunar og hef það til merkis. Var að glugga í bókina Í matinn er þetta helst eftir Jóhönnu Vigdísi, fréttakonu með meiru og fyrrum nágranna minn úr Bergstaðastræti. Mæli eindregið með henni, þó ég sé ekki búin að prófa nema eina uppskrift.

Fyrir nokkru var vinkona mín að skipuleggja ferð erlendra túrista hingað til lands og þeir vildu hefja túrinn með því að fara á ekta íslenskt veitingahús í Reykjavík. Við eftirgrennslan reyndist það ekki til, nema þá Múlakaffi. Þetta rifjaðist upp fyrir mér áðan þegar við mæðgunar vorum að borða soðna ýsu með kartölfum og rúgbrauði og ómældu magni af smjöri. Þetta er einn sá matur sem krökkunum mínum þykir bestur og okkur foreldrunum líka. Held að soðning með kartölfum, rúgbrauði og sméri sé hinn raunverulegi þjóðarréttur Íslendinga. En eldhúsið hér í Jöklatúninu var engu að síður með mjög alþjóðlegu yfirbragði, þrátt fyrir soðnu ýsuna, því dóttirin á í mikilli sjálfstæðisbaráttu og vill borða sjálf. Fiskurinn vildi tolla illa á gafflinum, svo hún brá á það ráð að stinga upp í sig með hendinni eins og Indverjar gera. Ekki það að ég hafi nokkurn tíma til Indlands komið en vann fyrir langa löngu með indverskum kokkum sem settust á hækjur sér og borðuðu, hnífaparalaust, hverskonar mat. Þetta fór allt mjög snyrtilega fram, annað en hægt er segja um borðhald heimasætunnar, því miður. En nú er hún sofnuð blessunin, best að nota tímann til að þrífa til í eldhúsinu.

Það er engin þörf að kvarta þegar blessuð sólin skín. Og nú skín sólin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

ég hélt lengi vel að nágrannar mínir í Lauga-ás byðu upp á heimilismat, s.s. plokkfisk, kótilettur í raspi og annað þjóðlegt... þessa ályktun dró ég af því að fyrir gluggunum eru mjög heimilislegar rauðköflóttar gardínur... og þar af leiðandi stakk ég uppá að fjölskyldan færi þarna eitt kvöldið sem ég nennti ekki að elda og langaði ekki í skyndimat... nema hvað að á matseðlinum var langur listi af ýmis konar "gúrmei" mat.. m.a humarréttur á hátt í 4000 kr... og engin þjóðlegheit..... svona eru þessar fyrirfram ákveðnu hugmyndir oft skrýtnar... kennir bara að láta ekki "frontinn" villa sér sýn...

Berglind I (IP-tala skráð) 8.2.2007 kl. 16:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband